Spegillinn 13.2.2020
Umsjón: Bergljót Baldursdóttir
Veðurstofan hefur gefið út rauða viðvörun fyrir Suðurland og höfuðborgarsvæðið vegna óveðursins sem gengur yfir í nótt og á morgun. Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið fyrr í dag. Rætt við Sigurð Jónsson, veðurfræðing hjá Veðurstofu Íslands og Rögnvald Ólafsson, aðgerðarstjóra hjá Almannavörnum
Kennsla í öllum grunnskólum og leikskólum í Reykjavík fellur niður á morgun. Landspítalinn hefur beðið starfsfólk á deildum með sólarhringsstarfsemi að mæta til vinnu klukkan fimm í nótt.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, rak í dag nokkra ráðherra í ríkisstjórninni. Fjármálaráðherrann sagði af sér þegar honum var skipað að skipta út ráðgjöfum sínum fyrir aðra sem voru forsætisráðherranum þóknanlegir.
Gríðarlega mikilvægt er að reyna að stöðva útbreiðslu á nýjum veirustofni eins og COVID-19. Verði ekki brugðist við gæti hún orðið óviðráðanleg, segir smitsjúkdómalæknir. Bergljót Baldursdóttir ræðir við Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalækni.
Skjalavarsla þeirrar skrifstofu Reykjavíkurborgar sem hélt utan um framkvæmdir við Braggann í Nauthólsvík var ekki í samræmi við lög. Þegar farið var að vista gögn eftir rannsókn innri endurskoðunar var víða pottur brotinn. Brynjólfur Þór Guðmundsson, ræðir við Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins
Þjálfun sjómanna, betri skipakostur, öflug björgunarviðbrögð og ekki eins grimm sókn og áður var. Öllu þessu má þakka að ekkert banaslys varð til sjós við Ísland í fyrra og var það þriðja árið í röð sem svo giftusamlega fór, Anna Kristín Jónsdóttir, ræddi við Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.
Það gæti farið svo að álverinu í Straumsvík verði lokað sem hefði talsverð áhrif á íslenskan efnahag. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn hafa óttast að skellt verði í lás í álverinu. Arnar Páll Hauksson fjallaði um álverið í Straumsvík.