Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri verður á launum í tvö ár eftir að hann lætur af embætti um áramótin. Fyrstu þrjá mánuði næsta árs verður hann dómsmálaráðherra til ráðgjafar um framtíðarskipan lögreglu og skipulagða glæpastarfsemi meðal annars. Magnús Geir Eyjólfsson sagði frá.
Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkur gerði mistök við útreikning á kostnaði við veitingar á borgarstjórnarfundum. Hann er 206 þúsund krónur á hvern fund en ekki 360 þúsund. Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins segir að draga verði úr kostnaði en segir að tryggja verði að málfrelsi skeriðist ekki styttist fundir.
Oddur Þorri Viðarsson, sérstakur ráðgjafi almennings í upplýsingamálum í forsætisráðuneytinu segir að Ríkisútvarpinu sé ekki skylt samkvæmt upplýsingalögum að birta nöfn umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra. Hins vegar sé starfið þess eðlis að upplýsingaréttur almennings og aðhald að hinu opinbera vegi þyngra en það sjónarmið að færri sæki hugsanlega um stöðuna ef listi yfir umsækjendur er birtur opinberlega.
Sameinuðu þjóðirnar segja ólíðandi ofbeldið sem mótmælendur í Írak hafa verið beittir síðustu vikur. Á fimmta hundrað eru fallnir og hátt í tuttugu þúsund hafa særst. Ásgeir Tómasson tók saman.
Landstjórnin í Færeyjum fékk í gærkvöld sett lögbann á frétt færeyska sjónvarpsins um fund stjórnvalda með fulltrúum kínversku stjórnarinnar. Lögbannið var sett á tuttugu mínútum áður en flytja átti fréttina.
-------
Niðurstöður Pisakönnunar sem lögð var fyrir í fyrra og kynntar í dag sýna að lesskilningi barna sem eru við það að ljúka grunnskóla hefur hrakað frá því sem var árið 2009 en litlu munar miðað við síðustu kannanir. Þessar niðurstöður gáfu menntmálaráðherra tilefni til að brýna menn til dáða og kynna í dag aðgerðir sem grípa á til að efla læsi og bæta orðaforða. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur formann Heimilis og skóla og
Ragnar Þór Péturson, formann Kennarasambands Íslands.
Íslendingar gætu haldið áfram að losa gróðurhúsalofttegundir í þeim mæli sem þeir hafa gert. Samdráttarmarkmiðum sem eru á ábyrgð stjórnvalda mætti ná með því að byggja upp vindorkuver eða virkja jarðvarma í öðrum ríkjum. Það er búið að veita aðildarríkjum Parísarsamkomulagsins heimild til að versla með losunarheimildir innanlands eða milli ríkja en nákvæm útfærsla á þessu alþjóðlega viðskiptakerfi sem er kallað SDM liggur ekki fyrir. Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs stjórnvalda, starfaði áður hjá Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og gegndi lykilhlutverki í viðræðunum í aðdragan