Sóttvarnalæknir segir í höndum stjórnvalda að taka ákvörðun um framtíð sýnatöku á landamærum. Hann boðar tillögur um breytingar á sýnatöku Íslendinga við heimkomu frá útlöndum.
Mývetningar og íbúar í Dalabyggð eru reiðir vegna verðhækkana í verslunum Samkaupa í sinni heimabyggð. Forstjóri Samkaupa segist skilja reiðina en segir reksturinn þurfa að vera sjálfbæran.
Kerlingarfjöll voru friðlýst í dag. Friðlýsta svæðið er um þrjú hundruð og fimmtíu ferkílómetrar. Friðlýsingar hafa verið tíðar það sem af er þessu ári.
Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fari fram í haust.
Aukin spenna er hér á landi vegna komu ferðamanna til landsins eftir að önnur bylgja veirunnar fór af stað og raddir þeirra sem vilja loka landinu fyrir ferðamönnum eru háværari. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, benti á á fundi Almannavarna í dag að ef aðgerðir eru hertar á landamærum sé hægt að slaka meira á innanlands og öfugt. Það sé stjórnvalda að taka ákvörðun. Bergljót Baldursdóttir tók saman. Heyrist í Þórólfi Guðnasyni, Kára Stefánssyni, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Gylfa Zoega.
Það greindust aðeins 2 smit innanlands í gær og 2 á landamærunum. Það eru 114 einstaklingar í einangrun og þar af 3 á spítala og 938 eru í sóttkví. Veiran skaut hressilega upp kollinum um daginn en smitum hefur fækkað síðustu daga. Hins vegar er ljóst að við eigum eftir að kljást við COVID í langan tíma. Það kom fram á almannavarnafundinum í dag og hefur reyndar gert áður að það eru stjórnvöld sem taka lokaákvörðun þegar kemur að takmörkunum í tengslum við kórónuveiruna. Ef ákvörðun verður tekin um að slaka á á landamærunum verður að herða aðgerðir innanlands og öfugt. Arnar Páll Hauksson talaði við Helgu Völu Helgadóttur og Óla Björn Kárason.