Spegillinn 16.2.2021
Umsjónarmaður: Bergljót Baldurdsóttir
Rýming tæplega 50 húsa í jaðri byggðarinnar í sunnanverðum Seyðisfirði tekur gildi klukkan 19 í kvöld. Hættustig almannavarna hefur aftur verið lýst yfir í bænum vegna skriðuhættu. Kristján Sigurjónsson ræðir við Aðalheiði Borgþórsdóttur í Múla á Seyðisfirði
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendir minnisblað til heilbrigðisráðherra á næstu dögum um frekari afléttingar innanlands í framhaldi af boðuðum hertum aðgerðum á landamærum sem kynntar voru í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir Ísland vera opnasta land í Evrópu núna, hér séu minnstar hömlur á atvinnulífi og daglegu lífi í álfunni.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, spurði heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvort til greina kæmi að sjálfstætt starfandi heilsugæslustöð fengi að starfa á Suðurnesjum. Ráðherrann telur að það þurfi að stíga mjög varlega til jarðar í þessum málum en full ástæða sé til að ræða þessar hugmyndir.
Dómstóll í Hollandi ógilti í dag útgöngubann stjórnvalda, sem hefur sætt eindreginni andstöðu landsmanna. Þau ætla að áfrýja dóminum.
Skjólstæðingum Frú Ragnheiðar, hjálparúrræðis Rauða krossins fyrir sprautufíkla og/eða heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 50 prósent á síðustu fjórum árum. 600 manns leituðu til Frú Ragnheiðar í fyrra. Kristján Sigurjónsson ræðir við Elísabetu Brynjarsdóttur
Kostnaður við uppbyggingu hjúkrunarheimila hljómar eins og gjaldþrota stefna segir Pálmi V Jónsson, yfirlæknir á öldrunardeild Landspítalans. Hann leggur til ýmsar breytingar á heilbrigðisþjónustu við eldra fólk meðal annars öldrunargeðdeild verði stofnuð og að heilsugæslan verði gerð að vöggu öldrunarþjónustunnar. Bergljót Baldursdóttir ræddi við Pálma
Norðmenn búa sig undir átakakosningar til þings í haust. Ríkisstjórn Ernu Solberg frá Hægri flokknum hefur tapað miklu fylgi á kjörtímabilinu og á engan möguleika á að lifa af ef skoðanakannanir standast. En það er ekki þar með sagt að ný vinstristjórn bíði þess að taka við. Þar þurfa fimm ólíkir flokkar að ná samstöðu. Kjósa á 13. september. Gísli Krisjánsson í Noregi sagði frá