Þó að skólastarf í grunnskólum sé rétt að hefjast hefur faraldurinn strax sett svip sinn á það. Skólasetningu í þremur skólum var frestað og á annað hundrað starfsmanna eru í sóttkví. Þá verða göngur og réttir með óhefðbundnu sniði í ár.
Aðeins hluti þeirra mörg hundruð starfa sem nú eru laus til umsóknar koma inn á borð Vinnumálastofnunar sem kallar eftir meira samráði við atvinnurekendur. Flest störfin eru í félags- og heilbrigðisþjónustu.
Aldrei hefur verið lagt hald á jafn mikið af kókaíni hér á landi og árið 2019. Þetta sýnir afbrotatölfræði frá Ríkislögreglustjóra. Heimilisofbeldismálum fjölgaði mikið í fyrstu bylgju faraldursins.
Búast má við að afborganir óverðtryggðra lána hækki talsvert þegar hagkerfið tekur aftur við sér og vextir hækka. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir að bönkum og lánastofnunum beri að upplýsa lántakendur um hugsanlega hækkun.
Nokkuð hörð gagnrýni kom fram á Alþingi af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins voru ræddar upphaf þingfundar í dag. Tilefnið var munnleg skýrsla sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti um stöðu COVID mála. Hún fór yfir þróunina og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Arnar Páll Hauksson tók saman.
Um 11 milljarðar er upphæðin sem sænsk yfirvöld telja að hafi verið svikið út úr eftirlaunasjóðum á vegum fyrirtækisins Falcon Funds. Þetta er annað stóra sakamálið á skömmum tíma í Svíþjóð, þar sem umsjónarmenn eftirlaunasjóða eru grunaðir um að hafa fé af fólki. Málin þykja sýna hve lítið eftirlit er með því hvernig farið er með eftirlaunasparnað sænsks launafólks. Kári Gylfason segir frá.
Kristján Bragason, framkvæmdastjóri samtaka launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði í Evrópu, segir að um fjórar milljónir farandverkamanna í landbúnaði búi við skelfilegar aðstæður og upplifi launaþjófnað. COVID-19 hefur beint athygli stjórnvalda víða í Evrópu að stöðu þessa fólks. Arnar Páll Hauksson talar við Kristján Bragason.