Spegillinn 21.08.2020
Umsjónarmaður: Bergljót Baldursdóttir
Tæknimaður: Mark Eldred
Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar nema tveir þurfa að viðhafa smitgát í fjóra daga og fara í tvær sýnatökur vegna smits sem kom upp á hóteli, þar sem þeir snæddu í vikunni. Einn starfsmaður hótelsins og sjö gestir hafa greinst með veiruna. Rætt við Þórólf Guðnason, sóttvarnarlækni og Sigurð Inga Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexey Navalný, sem grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir, verður fluttur undir læknishendur í Þýskalandi. Rússneskir læknar töldu fyrr í dag að ástand hans væri ekki nógu stöðugt fyrir flutning.
Gerðar hafa verið árásir á báða bóga milli Ísraels og Hamas liða undanfarnar vikur þótt vopnahlé sé í gildi. Hamas-liðar krefjast uppbyggingar á Gaza-svæðinu og fjölgun atvinnuleyfa í Ísrael.
Gæsaveiðitíminn hófst í gær en á fjórða þúsund manns stunda gæsaveiðar að jafnaði. Á meðan skotveiðimenn eru hvattir til hóflegra veiða á grágæs er talið óhætt að auka til muna veiði á heiðagæs. Águst Ólafsson ræðir við Áka Ármann Jónsson
Framkvæmdastjóri lækninga á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins óttast að veikt fólk með langvinna sjúkdóma leiti ekki á heilsugæsluna af ótta við Covid-19. Rætt verður við framkvæmdastjóra lækninga síðar í Speglinum. Bergljót Baldursdóttir ræðir við Sigríði Dóru Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Berjatínsla í skógum Norður-Svíþjóðar er í uppnámi í ár vegna heimsfaraldursins. Á ári hverju ferðast þúsundir Taílendinga yfir hálfan hnöttinn til að tína ber í skógum Norður-Svíþjóðar. Vinnan er erfið og slítandi, launin lág og aðstæðurnar minna oft á mansal. Líkt og margar aðrar greinar hagkerfisins, hefur berjaframleiðsla verið í uppnámi vegna heimsfaraldurs COVID. Kári Gylfason í Svíþjóð segir frá
Xi Jinping forseti Kína og leiðtogi Kínverska kommúnistaflokksins glímir nú við vaxandi andstöðu innan flokksins vegna kórónuveirufaraldursins. Ákvarðanir hans hafi verið vondar og hann hafi gert mörg slæm mistök, til að mynda þegar kórónuveirufaraldurinn braust út í Wuhan í lok síðasta árs. Kristján Sigurjónsson sagði frá.