Leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings vill að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, verði vikið úr embætti. Margir stuðningsmenn forsetans hafa snúið við honum baki vegna atburða gærdagsins þegar stuðningsmenn hans réðust á þinghús Bandaríkjanna.
Félag íslenskra atvinnuflugmanna sakar flugfélagið Bláfugl um brot á kjarasamningum vegna uppsagna 11 flugmanna félagsins. Í stað þeirra eigi að ráða nýja flugmenn í gegnum starfsmannaleigur á lélegri kjörum. Félagið segir að um alvarleg undirboð sé að ræða.
Ný rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að erfðamengi eineggja tvíbura eru svipuð en ekki eins, eins og gengið hefur verið út frá hingað til.
Sviðslistasjóður hefur veitt 30 atvinnusviðslistahópum 132 milljónir króna til verkefna leikárið 2021.
Múgurinn sem réðst inn í þinghúsið í Bandaríkjunum í gær er ekki dæmigerður fyrir stuðningsfólk Rebúblikanaflokksins, heldur lítill hópur öfgasinnaðra Trump fylgjenda. Þetta segir Halla Hrund Logadóttir stjórnmálafræðingur og sviðsstjóri Miðstöðvar norðurslóða við Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum. Kristján Sigurjónsson talaði við hana.
Það er ljóst að Bandaríkjamönnum er brugðið og reyndar allri heimsbyggðin eftir það sem gerðist við og í þinghúsinu í Washington í gær. Stuðningsmenn réðust inn í þinghúsið til að koma í veg fyrir eða að mótmæla að þingið staðfesti kjör Joe Binden og kjör tveggja öldungaþingmanna Demókrata. Hvaða afleiðingar mun þetta og hver verða viðbrögðin.
Arnar Páll Hauksson talaði við Sigríði Rut Júlíusdóttur lögmann og Jón Óskar Sólnes hagfræðing sem býr í Washingtonborg.