Umsjónarmaður Spegilsins er Pálmi Jónasson.
Félagsmálaráðherra stendur með nýjum forstjóra Vinnumálastofnunar og segir ólguna þar innanhúss stafa af breytingum sem hún var skipuð til að ná í gegn.
Rektor Háskóla Íslands vill ekki aðgangsstýringu að skólanum ef það þýðir að stúdentum fækki. Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram slíkar hugmyndir til að sporna gegn brottfalli.
Skiptar skoðanir virðast vera um tillögur samtakanna um að stytta grunnskólann. Aðstoðarskólastjóri segir að með því væri verið að stytta barnæskuna.
Skráningar hafa týnst í sjúkraskrárkerfinu Sögu og gleymst hefur að fylgja þeim eftir. Þetta segir sérfræðingur á bráðamóttöku.
Donald Trump þarf að skila skattframtölum, átta ár aftur í tímann. Þetta var niðurstaða áfrýjunarréttar í dag.
Mikil mengun hefur verið á Akureyri í allan dag og börnum og fólki með viðkvæm öndunarfæri ráðlagt að forðast útivist við umferðargötur.
Aðstoðarskólastjóri segir að það væri skerðing á lífsgæðum ef grunnskólinn yrði styttur um eitt ár. Börn verði ári styttir börn ef þau fari fyrr á vinnumarkaðinn. Formaður Félags grunnskólakennara segir að tillögur um styttingu grunnskólans séu í andstöðu við þá bylgju í samfélaginu að minnka álag. Arnar Páll Hauksson fjallar um málið í Speglinum.
Í dag eru fjörutíu ár síðan íranskir stúdentar brutu sér leið inn í bandaríska sendiráðið og tóku starfsmenn og fjölskyldur þeirra í gíslingu. Fimmtíu og tveimur gíslum var ekki sleppt fyrr en 444 dögum síðar. Pálmi Jónasson fjallar um málið í Speglinum.
Orkuskipti - hrein orka - rafvæðing bílaflotans - minni kolefnislosun. Þetta virðast bæði góð og þörf verkefni - bráðnauðsynleg jafnvel til að stemma stigu við þeim ógnvænlegu loftslagsbreytingum sem þegar eru farnar að eiga sér stað. En þótt orkan sé endurnýjanleg - eða eigi að vera það - þá er ekki sömu sögu að segja um alla þá sjaldgæfu málma sem eru notaðir til að framleiða rafbíla, sólarrafhlöður og vindmyllur. Vinnsla málmanna er orkufrek og getur valdið mengun og alvarlegum umhverfisspjöllum. Kári Gylfason í Gautaborg segir frá.