Umsjón: Pálmi Jónasson
Á fjórða tug kórónuveirusmita eru rakin til æfinga hjá Hnefaleikafélagi Kópavogs.
Allir þeir sem eru á gjörgæsludeild Landspítala vegna COVID-19 eru nú í öndunarvél.
Landlæknir segir álagið á Landspítala mikið, en verið sé að útskrifa sjúklinga til nágrannasveitarfélaganna til að létta álagið.
Læknar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafa enn ekki tilkynnt hvort hann verði útskrifaður af sjúkrahúsi í dag. Þar hefur hann verið frá því á föstudagskvöld.
Um helmingur sjómanna þjáist af mígreni og tæplega 90 prósent þeirra sem starfa í greininni hafa orðið sjóveikir, samkvæmt nýrri rannsókn.
Lengri umfjallanir:
„Það er ólíklegt en alls ekki fráleitt að Trump vinni,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 3. nóvember. Síðustu fjórar vikur kosningabaráttunnar verða mjög spennandi. Pálmi Jónasson ræðir stöðuna við Eirík í Speglinum.
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir lífsnauðsynlegt að halda lífi í fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi. Það sé mikilvægt vegna verðmætasköpunar á næsta ári. Arnar Páll Hauksson segir frá.
Eftir að fara brattur af stað í mars með loforð um að bjarga störfum undan veirufaraldrinum, hefur Rishi Sunak fjármálaráðherra Breta þurft að viðurkenna, eins og fleiri starfsbræður hans, að það er ekki hægt að bjarga öllum störfum á Covid-19 tímum, bara lífvænlegum störfum í lífvænlegum geirum. En markvissar aðgerðir og fjárlagahalli er líka höfuðverkur. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.