Umsjónarmaður: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Sóttvarnalæknir leggur til hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölda smita sem þar hafa greinst undanfarna daga. Tveggja metra regla verður tekin upp næstu tvær vikur og grímuskylda við ákveðnar aðstæður.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vill að tekin verði upp grímuskylda á Íslandi. Hann segir að óskynsamlegt sé að hertar reglur gildi ekki líka úti á landsbyggðinni.
Thor Aspelund, sem hefur gert spálíkön um útbreiðslu veirunnar, segir að smitstuðullinn sé hærri nú en í fyrstu bylgju faraldursins. Það þýði að veiran dreifi sér af meiri krafti.
Donald Trump kveðst vera orðinn nógu heilsuhraustur til að mæta Joe Biden, mótframbjóðanda sínum, í sjónvarpskappræðum í næstu viku.
Lengri umfjallanir:
Tveggja metra reglan verður tekin upp á ný á höfuðborgarsvæðinu og grímunotkun verður skylda við ákveðnar aðstæður vegna aukningar á smitum síðustu daga. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til að hertar aðgerðir taki gildi sem fyrst og gildi í tvær vikur. Hann segir það vera vonbrigði að þurfa að koma fram með tillögur að hertum aðgerðum en það sé nauðsynlegt. Níutíu og níu smit greindust innanlands í gær, öll nema fimm á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur segir að það eigi eftir að taka eina til tvær vikur að sjá árangur af aðgerðunum. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir tók saman.
En hvers vegna erum við komin á þennan stað í dag? 99 smit. Kári Stefánson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að einhverjir smitaðir einstaklingar hafi komist inn í landið í kringum 15. ágúst meðal annars tveir smitaðir ferðamenn frá Frakklandi. Samskonar smit og þeir voru með hafi borist út í samfélagið. Hann ætli ekki að dæma um það hvort smiðið hafi komið frá þeim eða einhverjum öðrum sem komu með sömu vél. Arnar Páll Hauksson ræddi við Kára, Thor Aspelund og Má Kristjánsson.