Umsjón: Pálmi Jónasson
Kórónuveirufaraldurinn virðist hafa náð hámarki hérlendis hvað varðar fjölda virkra smita. Sóttvarnalæknir segir mikilvægt að halda aðgerðum áfram til að koma í veg fyrir að útbreiðsla veirunnar aukist á ný.
Enginn hefur verið greindur með COVID-19 í Vestmannaeyjum síðasta sólarhringinn.
Einmanaleiki eldri borgara er að verða djúpstæður, segir formaður Landssambands eldri borgara.
Bernie Sanders er hættur við að sækjast eftir því að verða forsetaefni Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust.
Stefnt gæti í 25 prósenta atvinnuleysi í Skútustaðahreppi á næstu mánuðum ef versta spá gengur eftir. Þá gætu útsvarstekjur dregist saman um 130 milljónir króna sem eru tæp 22 prósent af heildartekjum sveitarfélagsins.
Stærstu flutningsfyrirtækin á Íslandi, hafa fækkað skipum í rekstri og breytt flutningsleiðum vegna COVID-19. Heildsalar segjast ekki verða varir við skort eða truflanir í innflutningi, hingað komi öll aðföng og matvæli sem hafi verið pöntuð, einu hnökrarnir tengist kannski klósettpappír - en það skrifast ekki á skort heldur aukna eftirspurn. Arnhildur Hálfdánardóttir fjallar um málið í Speglinum.
Ástralski kardinálinn George Pell sem dæmdur var til fangavistar fyrir barnaníð var í gær látinn laus eftir að hæstiréttur Ástralíu sneri dómi undirréttar og sýknaði hann af öllum ákærum. Pell var fjármálastjóri Páfagarðs og sem slíkur þriðji maður í virðingarröð kaþólsku kirkjunnar. Hann var kreddufastur og harðsnúinn baráttumaður kaþólsku kirkjunnar sem barðist hatrammlega gegn samkynhneigð, þungunarrofi, skilnaði, getnaðarvörnum og fyrir skírlífi presta. Pálmi Jónasson segir frá í Speglinum.
Heilbrigðismál eru ekki hluti af innri markaðnum, sem er ein skýringin á því að Evrópusambandið fór sér hægt þegar fór að kræla á COVID-19-faraldrinum. En það þarf líka efnahagsaðgerðir og þá hafa gömul deilumál frá evruhremmingunum á árunum eftir 2008 gengið í endurnýjun lífdaga. Sextán klukkustunda símafundur fjármálaráðherra evruríkjanna dugði ekki til að ná samstöðu. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.