Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Akureyri mótmæla því að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu Akureyrarflugvallar næstu fimm árin. Núverandi aðstaða geti hamlað frekari vexti og uppbyggingu í ferðaþjónustunni. Ágúst Ólafsson segir frá.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra ætlar að tryggja fé til að flytja skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til Landspítala. Þetta kom fram í svari hennar við óundirbúinni fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðrikson, Viðreisn á Alþingi í dag . Ásrún Brynja Ingvarsdóttir tók saman
Brauð úr krybbumjöli og dýrafóður úr svörtum hermannaflugum er í þróun í samevrópsku verkefni sem íslensk fyrirtæki og stofnanir taka þátt í. Birgir Örn Smárason sérfræðingur hjá Matís segir bragðið af pöddunum ekki skipta öllu máli heldur nýtist þær sem próteingjafi. Kristín Sigurðardóttir ræddi við hann.
Prófessor við Ríkisháskólann í Sankti-Pétursborg í Rússlandi játaði fyrir rétti í dag að hafa myrt fyrrverandi nemanda sinn í síðustu viku. Upp komst um málið þegar honum var bjargað úr ánni Moiku í miðborg Sankti Pétursborgar á laugardag. Dagný Hulda Erlendsdóttir sagði frá.
Ástandið í kælibransanum minnir á villta vestrið, eftirliti er ábótavant og hvati er til að láta sterkar gróðurhúsalofttegundir gossa út í andrúmsloftið í stað þess að skila þeim í förgun. Þetta segja starfsmenn stórs fyrirtækis á sviði kælitækni. Arnhildur Hálfdánardóttir tók saman og ræddi við Elís Sigurjónsson og Ingvar Kristinsson hjá Kælitækni.
Ódæðisverk glæpagengja í Svíþjóð, leigumorð og sprengjutilræði hafa orðið til þess að lögregluyfirvöld hafa lýst yfir sérstökum viðbúnaði á landsvísu. Rammast hefur kveðið að þessu í Suður-Svíþjóð. Kári Gylfason fréttaritari í Svíþjóð fylgdist með blaðamannafundi lögreglunnar í dag.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir
Tæknimaður Ragnar Gunnarsson
Stjórn útsendingar: Björg Guðlaugsdóttir