Veggjöld eiga að skila um sextíu milljörðum til samgöngubóta á höfuðborgarsvæðinu næstu fimmtán ár. Innheimtar yrðu tvö til sex hundruð krónur fyrir hverja ferð um stofnæðar borgarinnar. Magnús Geir Eyjólfsson segir frá.
Stjórn Dómstólasýslunnar ítrekaði í dag fyrri yfirlýsingar um að mikilvægt sé að fjölga dómurum við Landsrétt.
Talið er að rekja megi tvö óhöpp í hringtorgum á Vesturlandsvegi til þess að malbikið verður sérstaklega hált í bleytu. Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni segir að ástæðan sé steinefni sem flutt var inn frá Noregi. Hætt er að nota það nú.
Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að gera stjórnsýsluúttekt á embætti Ríkislögreglustjóra. Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er ákvörðun Ríkisendurskoðunar um þetta fagnað.
Breska ríkisstjórnin hyggst áfrýja niðurstöðu skosks áfrýjunardómstóls um að hlé á störfum breska þingsins til 14. október, sé ólöglegt. Þess er krafist að þingið verði kallað aftur til starfa. Guðmundur Björn Þorbjörnsson segir frá.
Reiknivillan í inntökuprófunum í læknadeild í vor, sem varð til þess að fimm nemendur sem áður höfðu ekki verið meðal 55 efstu í prófinu komust inn, hafði áhrif á einkunn 29 umsækjenda. Forseti læknadeildar Háskóla Íslands, segir að þegar línum var bætt við excel skjal, sem notað var til að halda utan um einkunnagjöfina, hafi villa komið upp í formúlu.
Tímamótadómur féll í héraðsdómi í Haag í Hollandi í dag þegar læknir var sýknaður af ákæru um manndráp eftir að hafa gefið 74 ára gömlum sjúklingi banvænan lyfjakokteil. Guðmundur Björn Þorbjörnsson segir frá.
Þótt John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hafi verið sagður arkitektinn að norðurslóðastefnu landsins, er ekki líklegt að brotthvarf hans breyti þeirri stefnu mikið. Þetta er mat Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra Íslands vestanhafs. Stígur Helgason ræddi við Albert og einnig heyrist brot úr viðtali Einars Þorsteinssonar við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta í Kastljósi.
Horfur eru á að ris úr dýfu sem ferðaþjónustan er í eftir magalendinguna í mars þegar WOW air varð gjaldþrota fari hægt af stað. Greiningardeild Arionbanka spáir því að ferðamönnum fjölgi um 2% á næsta ári og að störf í ferðaþjónustu verði um tveimur þúsundum færri undir lok árs en á sama tíma í fyrra. Rætt við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar um horfurnar.
Læknar og hjúkrunarfræðingar á átta heilsugæslustöðvum í Svíþjóð eru sakaðir um að hafa ýkt heilsufarsvanda skjólstæðinga sinna í þeim tilgangi að svíkja út fé. K