Reglur um heimkomusmitgát reyndust óljósar og brögð að því að þær séu brotnar, segir sóttvarnalæknir í minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Ráðherra hefur fallist á tillögur um óbreytt fyrirkomulag sóttvarna á landamærum næstu vikur. Freyr Gígja Gunnarsson sagði frá.
Mótmæli svokallaðra gulvestunga hefjast að nýju í París og fleiri borgum í Frakklandi á morgun. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Eigendur Hrísey Seafood hafa fest kaup á húsnæði í eyjunni og undirbúa að hefja þar fiskverkun á ný. Ágúst Ólafsson ræddi við SIgurð Jóelsson eigenda Hrísey Seafood.
Á næstunni verður ráðist í mat á hvort raunhæft sé að koma pálmatrjám fyrir í Vogabyggð, en tillaga þess efnis vann í samkeppni um útilistaverk fyrir hátt í tveimur árum. Ámundi Brynjólfsson, stjórnandi framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg segir að málið hafi ekki verið í forgangi hjá borginni. Anna Lilja Þórisdóttir talaði við hann.
----
Ekki er fylgst með því í hverja fangar hringja úr fangelsum landsins vegna persónuverndarsjónarmiða. Anna Kristín Newston, sviðsstjóri hjá Fangelsismálastofnun segir að hægt sé að grípa inn í ef upplýsingar liggi fyrir um að ekki megi vera samskipti við brotaþola. Þær upplýsingar liggi ekki alltaf fyrir.
Nýtt lagafrumvarp í breska þinginu brýtur útgöngusamning Breta við ESB og er pólitískt deiluefni, ekki síst í stjórnarflokknum.
Þúsundir flóttamanna misstu það skjól sem þeir þó höfðu þegar Moria-búðirnar á grísku eyjunni Lesbos brunnu í vikunni. Moria-búðirnar voru stærstu flóttamannabúðirnar í Grikklandi og löngu yfirfullar. í Hver sem eldsupptökin voru eru allir þeir sem í búðunum voru í enn verri stöðu en áður. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Þórunni Ólafsdóttur.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Mark Eldred. Stjórn útsendingar fréttahluta: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir