Andrúmsloftið í höfuðborg Bandaríkjanna virðist vera nokkuð rafmagnað, nú þegar tveir dagar eru í embættistöku Joe Biden, verðandi forseta. Gríðarleg öryggisgæsla er í Washington og fólk beðið um að halda sig fjarri. Þinghúsinu var lokað í dag þegar lítill eldur kviknaði. Við heyrum í fréttamanni okkar þar í fréttatímanum.
Fjölmargir hafa gert tilkall til þess að vera framar í röðinni eftir bólusetningu. Sóttvarnalæknir segir að ef orðið yrði við þeim öllum færðust viðkvæmari hópar aftar.
Fjármálaráðherra segir að ef ekki fáist ásættanlegt verð fyrir eignarhlutinn í Íslandsbanka verði fallið frá söluáformum. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir engin rök með sölunni halda og spyr hvort asinn sé vegna kosninga í haust.
Forseti ASÍ segir skynsamlegt að bótatímabil atvinnuleysisbóta verði lengt. Sveitarfélögin hafi ekki burði til að taka við þeim sem falla út af bótum.
Sambýliskona fyrrum dómsmálaráðherra Noregs hefur verið dæmd í 20 mánaða fangelsi fyrir aðför að lýðræðinu.
Sauðfjárbændur í Vestur-Húnavatnssýslu vilja að landbúnaðarráðherra hafni kaupum einkahlutafélags á jörðinni Núpsdalstungu í Miðfirði.
Forsætisráðherra Ítalíu rær lífróður til að bjarga ríkisstjórn landsins frá falli.