Spegillinn 19.október 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Heimsóknir til smitaðra íbúa á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík skiptu sköpum við bata þeirra. Þetta segja eiginkona eins íbúa og verkefnisstjóri á heimilinu.
Líkamsræktarstöðvar fá að opna dyr sínar á morgun að uppfylltum ströngum skilyrðum. Sömu skilyrði gilda fyrir líkamsræktarstöðvar og fyrir íþróttaiðkun.
Húsleit hefur verið gerð í dag hjá tugum róttækra íslamista í Frakklandi eftir að kennari var myrtur á hrottalegan hátt fyrir helgi. Fimmtán eru í haldi.
Formaður velferðarnefndar Alþingis skilur ekki hvað tefur stjórnvöld í að ganga til samninga við fyrirtækið Heilsuvernd um að taka við sjúklingum frá Landspítalanum.
Það stefnir í að gerðir verði 330 samningar í kjarasamningalotunni sem hófst fyrir tæpum tveimur árum. Um helmingur samninganna nær til innan við 100 launamanna.
Lengri umfjallanir:
Áætlað er að gerðir verði 330 kjarasamningar í samningalotunni sem hófst í árslok 2018. Í byrjun september voru enn 45 kjarasamningar lausir. Fjöldi launamanna á bak við hvern samning er mjög mismunandi. 24 dæmi eru um að sérstakir samningar hafi verið gerðir við færri en 10 einstaklinga. Eitt dæmi er um að kjarasamningur hafi verið gerður við einn launamann. Það er kannski ekki nýtt að samningalotur standi yfir í langan tíma. Þessi sem er reyndar ekki lokið hefur staðið nokkuð lengi og líklegt að hún standi yfir í tvö ár. Í fyrra tóku samningamenn sér sumarfrí enda erfitt að kalla samninganefndir saman yfir hásumarið. Svo hefur COVID- 19 að sjálfsögðu sett strik í reikninginn. Katrín Ólafsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, skrifar grein í Vísbendingu þar sem hún rýnir í nýja skýrslu Kjaratölfræðinefndar og dregur fram nokkrar tölulegar upplýsingar um íslenskan vinnumarkað. Niðurstaða hennar er að meiri samvinna stéttarfélaga eða sameining gæti styrkt stöðu þeirra við samningaborðið og aukið skilvirkni kjarasamninga. Arnar Páll Hauksson talar við Katrínu.
Í síðustu viku kynnti Hafrannsóknastofnun niðurstöður úr loðnumælingum haustsins og lagði til að loðnuveiðar verði ekki leyfðar í vetur, en ráðgjöfin verði endurskoðuð eftir áramót í ljósi mælinga sem gera á í upphafi árs. Þetta gæti orðið þriðji veturinn í röð þar sem verður loðnubrestur því ekki hefur mælst nægilega mikið til þess að Hafrannsóknastofnun geti mælt með veiðum. Birkir Bárðarson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun bendir þó á að bæði í haust og í fyrrahaust hafi verið töluvert um ungloðnu í mælingunum. Anna Kristín Jó