Spegillinn 20.apríl 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Mark Eldred
Unglingspiltarnir sem bjargað var úr höfninni í Hafnarfirði í janúar voru í hjartastoppi í tvo tíma. Þeir eru einu Íslendingarnir sem hafa lifað af svo langt hjartastopp. Þeir eru nú báðir komnir heim af spítala.
Ekki er tímabært að hefja mótefnamælingar vegna COVID-19 hér á landi vegna þess að ekki hefur fengist úr því skorið hvaða aðferð gagnist best. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Aðeins tvö tilfelli greindust síðasta sólarhring, bæði á Vestfjörðum. 10 hafa nú látist vegna COVID-19 sjúkdómsins hér á landi.
Hertum aðgerðum verður aflétt á Suðureyri, Flateyri, Súðavík og Þingeyri eftir viku. Þá munu sömu takmarkanir gilda þar og annars staðar á landinu. Strangari aðgerðir verða áfram í gildi í Bolungarvík, á Ísafirði og í Hnífsdal til 4. maí hið minnsta.
Verð á tunnu af bandarískri hráolíu fór í síðdegis niður fyrir tvo dollara. Það hefur ekki verið jafn lágt í áratugi.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans þakkaði erlendu starfsfólki spítalans fyrir framlag þess á upplýsingafundi almannavarna, fólki sem bæði starfar sem fagmenn og einnig þeim sem sinna þrifum og fleiru.
Ekkert staðfest smit er nú á Norðurlandi vestra og einungis þrír eru í sóttkví. Þar með er stórum áfanga náð en fyrstu tilfelli fjórðungsins komu upp fyrir nákvæmlega mánuði, 20. mars í Húnaþingi vestra.
Tvær tegundir af örplasti fundust í drykkjarvatni á Akureyri samkvæmt rannsóknum við Háskólann á Akureyri. Töluvert meira plast mældist í sjávarseti í Eyjafirði en við Stafangur í Noregi, sem er tíu sinnum fjölmennara svæði.
Lengri umfjöllun:
Íslendingar eru ánægðastir með frammistöðu stjórnvalda vegna COVID-19 samkvæmt alþjóðlegri könnun Gallups. 92% Íslendinga telja að útbreiðsla kórónuveirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti. Arnar Páll Hauksson segir frá.
Breytt staða blasir við mörgum stéttarfélögum í COVID-19 faraldrinum. Félagsmenn hafa misst vinnu, starfa í skertu starfshlutfalli og margir hafa þurft að sinna vinnu heiman frá sér. Í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar á síðasta ársfjórðungi síðasta árs kom fram að þriðjungur launafólks á aldrinum 25-64 ára vinnur aðalstarf sitt venjulega eða stundum heima. Bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 sýna nokkra aukningu á fjarvinnu launafólks af völdum COVID-19 en endanlegar niðurstöður ársfjórðungsins liggja ekki fyrir. Framhaldsskólakennarar hafa ekki þurft að óttast atvinnumissi en vinnan þeirra hefur gjörbreyst. Kristján Sigurjónsson ræðir við Guðjón Hrein Hauksson