Spegillinn 20.05.2019
Umsjón: Pálmi Jónasson
Viðbrögð við aðgerðum Hatara í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva voru sterk vegna þess að Ísraelar vilja ekki vekja athygli fólks, og allra síst almennings í Ísrael, á málefnum Palestínumanna. Þetta segir prófessor í sögu Mið-Austurlanda.
Einkareknir fjölmiðlar verða efldir með fjárstyrkjum, samkvæmt nýju frumvarpi á Alþingi.
Fækkað verður um sjö þúsund manns hjá Ford bílasmiðjunum bandarísku á næstu vikum. Fækkunin helst í hendur við aukna áhersu á sjálfkeyrandi bíla og rafmagnsbíla.
Formaður Bílstjórafélags Akureyrar óttast að fólk geti ekki framfleytt sér á því að keyra leigubíla ef af nýju frumvarpi um leigubifreiðar verður.
Og ítarlega verður fjallað um Prinsessuna og seiðskrattann.
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda segir að viðbröð við aðgerðum Hatara í Ísrael hafi verið sterk vegna þess að Ísraelar vilji ekki vekja athygli fólks, sérstaklega ekki ísraelsks almennings á málefnum Palestínu. Aðgerðir þeirra séu fyrst og fremst táknrænar. Bergljót Baldursdóttir fjallar um málið.
Þess er krafist að Marta Lovísa Norgegsprinsessa afsali sér titlinum og ekki í fyrsta sinn. Það hafa verið kærastar og álfaskóli. Nú er það nýi kærastinn og fyrirlestraferðin Prinsessan og seiðskrattinn. Nýi kærastinn er umdeildur en vinsæll meðal fræga fólksins, leikkonan Gwyneth Paltrow er einn skjólstæðinga hans. Það er stórfrétt þegar prinsessa eignast nýjan kærasta en þegar kærastinn er særingamaður frá Bandaríkjunum þá fer allt á hliðina. Pálmi Jónasson fjallar um málið.
Brexit hefur ekki hrifið ESB-andstæðinga í öðrum ESB-löndum eins og útgöngusinnar í Bretlandi bjuggust við. En hingað til hafa Evrópuþingkosningar þó sýnt dalandi áhuga kjósenda. Spurning hver framvindan verður í kosningunum í næstu viku. Sigrún Davíðsdóttir fjallar um málið.