Umsjón: Pálmi Jónasson
Dómsmálaráðherra vill gera gagngerar breytingar á skipulagi lögreglu. Ríkislögreglustjóri ætlar ekki að tjá sig um víðtækt vantraust í hans garð.
Ríkislögmaður bauð afkomendum Sævars Ciesielskis um 240 milljónir króna í bætur í vor. Guðjóni Skarphéðinssyni voru boðnar um 140 milljónir en hann krefst þrettán hundruð milljóna króna.
Dómur Hæstaréttar gegn Boris Johnson er tímamótadómur og styrkir þingið til muna að mati stjórnmálafræðings.
Innflutningur á gosi og bragðbættu vatni hefur rúmlega fjórfaldast á innan við tveimur árum. Mest munar um stóraukinn innflutning frá Svíþjóð.
Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum BSRB við ríkið. Eftir árangurslausan samningafund í dag ákvað samninganefnd BSRB að slíta viðræðunum, sem hafa strandað á styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir.
Fyrrverandi útibússtjóri Danske Bank í Tallinn í Eistlandi er horfinn sporlaust. Lögregla telur að hann sé í lífshættu.
Lengri umfjöllun:
Innflutningur á gosi og bragðbættu vatni hefur rúmlega fjórfaldast á innan við tveimur árum. Þetta má lesa úr innflutningsskrá Hagstofunnar. Mest munar um stóraukinn gosdósainnflutning frá Svíþjóð. Verkfræðingur hjá Eflu segir kolefnisspor innfluttra drykkja hærra en þeirra sem framleiddir á Íslandi. Arnhildur Hálfdánardóttir sagði frá.
Donald Trump er sakaður um að kúga forseta Úkraínu til að rannsaka Joe Biden sem hefur mælst efstur í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Fyrir síðustu forsetakosningar var Trump sakaður um að vinna með Rússum til að koma höggi á þáverandi andstæðing sinn Hillary Clinton. Pálmi Jónasson segir frá.
Ellefu einróma hæstaréttardómarar telja þá ráðstöfun Boris Johnson forsætisráðherra Breta að senda þingið heim ólöglega. Þingstörf eigi því halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Dómur Hæstaréttar Breta varðar grundallarþætti breskrar stjórnskipunar og mun bergmála lengi. Þá líka í komandi kosningum og þá í samhengi við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þó dómurinn snúist ekki um það mál. Sigrún Davíðsdóttir fjallar um málið.