Spegillinn 25.maí 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Síðasti upplýsingafundur Almannavarna að sinni var haldinn í dag. Ekkert COVID-19 smit hefur greinst síðasta sólarhring, en sex smit hafa greinst í þessum mánuði.
Stjórnvöld í Þýskalandi hyggjast framlengja ýmsar varúðarráðstafanir gegn kórónuveirunni fram í júlí. Stjórnendur tveggja sambandsríkja telja nóg komið.
Sveitarfélög í Evrópu velta nú fyrir sér hvernig bregðast eigi við mögulegu bakslagi í loftslagsmálum vegna COVID-19 faraldursins. Þetta segir forstöðumaður Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Um klukkan hálf sex höfðu 130 kosið utan kjörfundar vegna komandi forsetakosninga. Opnað var fyrir atkvæðagreiðslu hjá sýslumönnum í morgun en kosningarnar fara fram 28. júní. Tveir eru í framboði, Guðni Th. Jóhannesson forseti og Guðmundur Franklín Jónsson.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 47,5% í nýrri könnun MMR og hefur minnkað um 7 prósentustig frá síðustu könnun þegar hann var rúmlega 54%.
Hátt í fimm þúsund einyrkjar í sjálfstæðri atvinnustarfsemi, meðal annars hárgreiðslufólk og tannlæknar, sóttu um bætur til Vinnumálastofnunar. Þær nema 1700 milljónum króna, en greiðslur hafa dregist vegna álags.
Umsóknum um framhaldsnám í Háskólanum í Reykjavík fjölgaði um 33 prósent á milli ára. Alls hafa borist 1.423 umsóknir um meistaranám í ár en í fyrra voru þær 1.073.
Lengri umfjöllun:
Það hvernig stjórnvöld hafa tekist á við COVID-faraldurinn hefur verið eins og kennslustund í stefnumótun. Þetta segir Kristján Vigfússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, sem hefur sérhæft sig í stefnumótun. Stjórnvöldum hafi tekist að forðast gjótur sem önnur ríki hafi fallið ofan í. Hann segir að það hafi verið rétt ákvörðun að hafa sérfræðingana í forgrunni en að nú þegar úrlausnarefnin eru orðin pólitískari og álitamálin fleiri reyni á að viðhalda gagnsæi. Fólk verði að átta sig á því hvort vísindi eða pólitík liggi að baki ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Arnhildur Hálfdánardóttir ræðir við Kristján.
Alma Möller var gestur Spegilsins í beinni útsendingu. Tímamót urðu í dag í ráðstöfunum gegn COVID-19 faraldrinum og ýmsum höftum aflétt. Síðasti upplýsingafundur Almannavarna var haldinn í dag. Kristján Sigurjónsson ræðir við Ölmu hvernig til hefur tekist hingað til.