Spegillinn 15. Október 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Mark Eldred
Sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af markaðssetningu fyrirtækja á vörum sem þau segja að vinni á kórónuveirunni. Minnisblað hans um aðgerðir verður væntanlega rætt í ríkisstjórn á morgun. Þá er von á nýju spálíkani um faraldurinn á morgun.
Úttekt Ríkisendurskoðunar staðfestir málflutning Öryrkjabandalagsins um að stór hluti lífeyrisþega njóti ekki þeirra réttinda sem þeim ber. Þetta segir formaður Öryrkjabandalagsins.
Íbúar Póllands eru beðnir um að halda sig heima ef þeir mögulega geta eftir að metfjöldi smita, yfir átta þúsund, greindist síðasta sólarhring.
Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir umsögnum og upplýsingum um fyrirhugaðan samruna Norðlenska og Kjarnafæðis.
Það er mannréttindabrot að að fólk sé þvingað til að hætta að vinna 70 ára segir formaður Landssambands eldri borgara.
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ taka vel í hugmyndir Samherja um laxeldi í Helguvík.
Lengri umfjallanir:
Þessa dagana er verið að senda kynningarefni til nærri 10 þúsund manns sem hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði um möguleika á að stunda nám í framhalds- eða háskólum í eina önn á fullum atvinnuleysisbótum. Úrræðið Nám er tækifæri nær þó aðeins til 3000 skólaplássa. Í haust var ákveðið að virkja á ný úrræðið Nám er vinnandi vegur sem komið var á í bankahruninu. Það er þó með öðru sniði og gengur nú undir nafninu Nám er tækifæri. Þeir sem hafa verið atvinnulausir eða í atvinnuleit lengur en í sex mánuði geta sótt um að hefja nám á vorönn og síðan á haustönn 2021 og vorönn 2022. Átakið nær til þessara þriggja anna. Vinnumálastofnun hefur það verkefni að kynna þetta fyrir atvinnuleitendum. Umsóknir vegna háskólanáms á næstu önn eru að renna út. Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Vinnumálastofnunar, segir að verkefnið hafi forgang og unnið hafi verið hörðum höndum við að kynna það. Arnar Páll Hauksson ræðir við Hrafnhildi.
Ráð vísindamanna eru orðin fastur liður í pólitískri umræðu í Bretlandi um veiruaðgerðir. Nú þegar ríkisstjórn Borisar Johnson sætir ámæli fyrir að fylgja ekki ráðum eigin sérfræðinga heyrist líka að sérfræðingar séu ekki sammála um hvað gera skuli. Sumir telja að þau rök bergmáli umræðu fyrri áratuga um óhollustu tóbaks og loftslagsáhrif af mannavöldum. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.
Sæstrengur verður ekki lagður frá Íslandi nema það þjóni heildarhagsmunum þjóðarinnar og þá að undangengnu samþykki Alþingis. Þetta kemur fram í nýrri orkustefnu stjórnvalda til ársins 2050. Stefnt er að því að Í