Spegillinn 28. desember 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Mark Eldred
80 þúsund skammtar af bóluefni frá Pfizer og BioNTech koma til viðbótar þeim 170 þúsund skömmtum sem íslensk stjórnvöld hafa þegar samið um. Skrifað verður undir samning þess efnis á morgun.
Íbúar 42 húsa á Seyðisfirði fengu að snúa aftur heim í dag eftir að rýmingu var aflétt að hluta. Hreinsunarstarf hefst á morgun og þá verður staða varðandi rýmingu annarra húsa endurskoðuð.
Alþingi kemur ekki saman fyrir lok árs eins og stjórnarandstaðan hefur krafist.
Mun fleiri hafa dáið af völdum COVID-19 í Rússlandi en áður hafði verið greint frá, þar af tæplega 26 þúsund í síðasta mánuði.
Almenn komugjöld í heilsugæslu lækka um 29 prósent um áramót. Börn, öryrkjar og aldraðir greiða ekkert fyrir komuna
Lengri umfjöllun:
Flugvél með tíu þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer og BioNtech lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Tíu þúsund lítil mæliglös af -80 gráða köldu efni sem sumir kalla kraftaverk og verður á næstu dögum sprautað í upphandleggi fólks sem tilheyrir forgangshópum, íbúa hjúkrunarheimila og framlínufólks heilbrigðiskerfinu. Bóluefnið á sér aðeins nokkurra mánaða sögu, síðastliðið vor var það hvergi til, nema þá kannski í kollum vísindamanna, vísindamanna eins og Kathrin U Janssen sem stýrir bóluefnasviði lyfjarisans Pfizer, sem er með höfuðstöðvar í New York. Janssen hefur áður komið að þróun bóluefna við lungnabólgu og HPV-veirunni. í samtali við bandaríska fréttaskýringaþáttinnn 60 mínútur rifjaði hún upp hvernig henni leið þegar neyðarástand ríkti í New York-borg í vor. Arnhildur Hálfdánardóttir tekur saman og ræðir við Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalækni um bóluefnið
Atvinnuleysið er mesta áhyggjuefnið í eftirmálum Covid faraldursins segir Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík. Margir óvissuþættir hafa áhrif á hversu hratt efnahagurinn tekur við sér á næsta ári í kjölfar bólusetningar. Kristjan Sigurjónsson ræðir við Katrínu um efnhaginn á árinu 2020 og hverning horfurnar eru á næstu mánuðum.
Í tíu mínútna ávarpi á aðfangadag þegar Boris Johnson forsætisráðherra Breta kynnti fríverslunarsamning Breta við Evrópusambandið hnykkti hann á að með útgöngu úr Evrópusambandinu hefðu Bretar nú aftur stjórn á eigin fiskveiðum. Raddir úr sjávarútvegi segja þó annað - staða greinarinnar verði mögulega verri eftir Brexit eins og Sigrún Davíðsdóttir heyrði þegar hún ræddi í dag við Barry Deas framkvæmdastjóra breska sjómannasambandsins.