Mörg fyrirtæki berjast í bökkum segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og það sýnir hve alvarleg kórónukreppan er. Leyfa á fleiri fyrirtækjum að sækja um tekjufallsstyrki sem getur orðið að hámarki 17 og hálf milljón. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir tók saman og rætt var við Bjarna.
Kröftugur jarðskjálfti á Eyjahafi varð átta að bana og olli töluverðri eyðileggingu í borginni Izmir í Tyrklandi. Skemmdir urðu einnig á grísku eyjunni Samos. Ásgeir Tómasson sagði frá. Theodór Elmar Bjarnason býr í Izmir og fann vel fyrir skjálftanum .
Harðari sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti og mega þá ekki fleiri en tíu koma saman. Ekki er búið að útfæra sóttvarnir í skólum en búast má við raski á skólastarfi, sérstaklega í efstu bekkjum grunnskóla. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra segir von á reglugerð innan skamms.
Franskir ríkisborgarar eru í hættu, hvar sem þeir eru í heiminum, að mati þarlendra stjórnvalda. Þúsundir íbúa í múslimaríkjum í Suður-Asíu tóku þátt í mótmælum gegn þeim í dag. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Seðlabanki Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af kröfum Samherja, sem krafðist rúmlega 300 milljóna króna í bætur. Bankinn þarf hins vegar að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, skaðabætur upp á tæpar tvær og hálfa milljón með vöxtum. Andri Yrkill Valsson sagði frá.
-----------
Á miðnætti taka gildi enn strangari takmarkanir vegna sóttvarna en hafa gilt og gilda nú sömu viðmið um allt land. Þessar aðgerðir þýða að enn hægir á samfélaginu og staðan er grafalvarleg, segir Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við hana.
Af hverju velja unglingar í 10. bekk að loknu grunnskólanámi frekar bóknám en verknám. Soffia Valdimarsdóttir aðjúnkt í náms- og starfsráðgjöf stýrði málstofu um náms- og starfsval unglinga í Þjóðarspegli Háskóla Íslands í dag. Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að 10. bekkingar velji sér framhaldsnám út frá ríkjandi samfélagslegu viðhorfi. Kristján Sigurjónsson talaði við Soffíu.
Opinber skýrsla um andúð á gyðingum í breska Verkamannaflokknum hefur nú leitt til þess að Jeremy Corbyn fyrrverandi flokksleiðtogi hefur verið rekinn úr þingflokki verkamanna. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson.