Aldrei hafa fleiri misst vinnu í hópuppsögnum en í fyrra. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að sífellt fleiri glími nú við fátækt sökum langtímaatvinnuleysis. Höskuldur Kári Schram ræddi við hana.
Um 80 aldraðir bíða nú á Landspítala eftir að komast á hjúkrunarheimili og fyrr í dag biðu hátt í 30 manns á bráðamóttöku eftir að komast á hinar ýmsu deildir spítalans - sumir á göngunum. Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir segir þetta óviðunandi á tímum heimsfaraldurs.
Sex ára barn stórslasaðist þegar það féll úr leiktæki á skólalóð í Kópavogi í nóvember. Leiktækið uppfyllir allar öryggiskröfur. Hrönn Óskarsdóttir móðir barnsins undrast að slys geti orðið í tæki sem uppfyllir kröfur.
Yfir sextíu þúsund COVID-smit hafa verið greind í Bretlandi síðasta sólarhringinn og hafa þau aldrei verið fleiri. Nýtt afbrigði veirunnar, sem talið er sérlega smitandi, hefur dreifst um allt landið. Dagný Hulda Erlendsdóttir sagði frá. Brot úr ávarpi Borisar Johnsons síðdegis.
Vonast er til að Lyfjastofnun Evrópu afgreiði markaðsleyfi fyrir bóluefni frá Moderna á morgun. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir að tryggt sé í samningunum að afhending efnisins hefjist eigi síðar en 15 dögum eftir samþykkt markaðsleyfis. Bergljót Baldursdóttir tók saman.
------------
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fór að öllu leyti eftir leiðbeiningum og fyrirmælum Lyfjastofnunar og Landlæknis við blöndun og meðhöndlun bóluefnisins Comirnatys eins og segir í tilkynningu frá henni í dag. Ekki sé ráðlagt að safna milli glasa en náist heill skammtur úr lyfjaglasi sé notkun hans leyfð, enn fremur að umræðan eigi ekki að snúast um færni heldur hvort farið sé að leiðbeiningum. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Sigríði Dóru Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisns.
Færri sóttu um að stunda nám á atvinnuleysisbótum en búist var við. Meirihluti umsækjenda eru erlendir atvinnuleitendur. Arnar Páll Hauksson ræðir við Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra og Hrafnhildi Tómasdóttur sviðsstjóra hjá VInnumálastofnun.
Yfirvöld í Noregi hafa gefið upp alla von um að finna fólk á lífi eftir jarðfallið í bænum Ask í Gjerdrum. Björgunarmenn leita samt áfram með hundum. Gísli Kristjánsson.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson. Stjórn útsendingar fréttahluta: Björg Guðlaugsdóttir