Spegillinn 9.september 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Landlæknir metur það svo að engar upplýsingar séu í níu blaðsíðna skjali sem unnið var fyrir tæpum þremur árum af greiningardeild Sjúkratrygginga um Krabbameinsfélagið sem kalli á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda umfram þá skoðun sem þegar er hafin hjá Embætti landlæknis.
Rúmlega fimmtugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir morð í í Úlfarsárdal í Reykjavík í desember.
Ráðherra í bresku ríkisstjórninni viðurkenndi í dag í þinginu að boðað lagafrumvarp stjórnarinnar vegna útgöngu úr Evrópusambandinu fæli í sér brot á alþjóðalögum.
11% fleiri tilkynningar hafa borist Barnavernd Reykjavíkur það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra og áætlað er að kostnaður borgarinnar við málaflokkinn aukist um 14% á næsta ári. Færri tilkynningar berast frá skólum og fleiri frá nágrönnum barna.
Lengri umfjallanir:
Málefni hjúkrunarheimila. Í Speglinum í gær kom fram í umræðum Eybjargar Hauksdóttur framkvæmdstjóra Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Ásgerðar Gylfadóttur formanns bæjarráðs Hornafjarðar um stöðu hjúkrunarheimila að þau standa flest fjárhagslega illa. Daggjöld sjúkratrygginga til hjúkrunarheimila sem sjálfseignarstofnanir eða sveitarfélög reka duga í langflestum ekki til og nú er svo komið að stór sveitarfélög eins og Akureyri og Hornafjörður hafa sagt upp þjónustusamningi við Sjúkratryggingar og hjúkrunarheimili þar í sveit verða rekin af stofnunum á vegum ríkisins. Til að halda þessari umræðu áfram í Speglinum eru þeir mættir Ólafur Þór Gunnarssson öldrunarlæknir, þingmaður Vinstri grænna og 1. varaformaður velferðarnefndar Alþingis hér í stúdíó og Björn Bjarki Þorsteinsson, forstöðumaður hjúkrunarheimilsins Brákarhlíðar í Borgarnesi í síma. Kristján Sigurjonsson talar við þá
Málið kostaði dómsmálaráðherra Noregs embættið. Sambýliskona hans kemur núna fyrir dóm í Osló sökuð um að hafa setta á svið aðför að ráðherranum og staðið að baki alvarlegum hótunum í hans garð - og þó búa þau enn saman. Hún neitar og ráðherrann fyrverandi styður konu sína. Næstu tíu vikur á að reifa þetta sérkennilega mál í dómhúsinu í Osló. Gísli Kristjánsson segir frá.