Umsjón: Stígur Helgason
Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson
Dómsmálaráðherra fagnar því að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hafi ákveðið að taka Landsréttarmálið til umfjöllunar. Þó sé viðbúið að bíða þurfi niðurstöðu í ár eða lengur.
Stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur telur að ríkislögreglustjóri eigi að stíga til hliðar á meðan úttekt á embættinu fer fram.
Atkvæðagreiðsla á breska þinginu um hvort boða eigi til þingkosninga í næsta mánuði, dregst fram á kvöld. John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins ætlar að hætta í embætti, hvort sem kosið verður eða ekki.
Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur keypt tæplega ellefu prósenta hlut í Brimi fyrir átta milljarða.
Deila er risin um það hvar grafa skuli Robert Mugabe, fyrrverandi forseta Simbabve. Um það eru fjölskylda hans og stjórnvöld ósammála.
Í Speglinum var rætt við Berglindi Svavarsdóttur, formann Lögmannafélags Íslands, um ákvörðun yfirdeildar Mannréttindadómstólsins að taka Landsréttarmálið til umfjöllunar.
Fyrir tveimur mánuðum, þegar Boris Johnson tók við sem forsætisráðherra Breta bauð írski forsætisráðherrann Leo Varadkar honum strax í heimsókn til að ræða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Það var fyrst í morgun að Johnson gaf sér tíma til fundar í Dyflinni. Sem fyrr er allt óklárt heima fyrir: Johnson slær úr og í um útgöngusamning og hefur ekki lengur tök á framvindunni því hann hefur ekki meirihluta í þinginu. Hann getur því ekki efnt til kosninga í bráð og þingið gæti neytt hann til að fresta áætlaðri útgöngu úr ESB 31. október. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við Sigrúnu Davíðsdóttur, sem hefur fylgst með framvindunni.
Þriðjungi fleiri komu á bráðamóttöku Landspítalans vegna fíkniefnaneyslu síðsumars en gera í venjulegum mánuði. Yfirlæknir bráðalækninga segir aukna kókaínneyslu áberandi og hún sé ekki bundin við neinn einn þjóðfélagshóp. Afleiðingarnar geti verið hjartaáfall. Ráðgjafi á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti segir það algera undantekningu að fólk komi í meðferð vegna áfengisneyslu. Hópurinn þar sé yngri en áður og í vanda vegna neyslu á hörðum fíkniefnum.