Spegillinn 26. 10. 2022
Formaður Fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar segist ekki vilja gera lítið úr viðbrögðum í alvarlegu eineltismáli sem upp hefur komið í bænum en alltaf megi gera betur. Ráðið samþykkti á fundi í dag að láta yfirfara verkferla í eineltismálum. Móðir drengs sem gekk í Hraunavallaskóla í Hafnarfirði flúði með son sinn norður í land vegna eineltis.
Flugumferð stöðvaðist á Keflavíkurflugvelli í dag vegna sprengjuhótunar. Hún reyndist tilhæfulaus.
Fagráð Sjúkrahússins á Akureyri óttast að fjárskortur verði til þess að grunnþjónusta og þekking glatist á spítalanum.
Óöld ríkir á Haítí vegna herskárra glæpagengja sem halda þjóðinni í heljargreipum. Kólera hefur blossað upp í landinu á ný.
Lengri umfjöllun:
Þó svo að í hugum margra sé covid 19 faraldurinn minningin ein þá er enn glímt við hann víða um heiminn, og einnig hér á landi. Í morgun tilkynntu heilbrigðisyfirvöld um kaup á lyfinu Paxlovid til að meðhöndla á sjúklingum sem eiga á hættu að veikjast alvarlega af Covid 19.
Enn liggur fólk inni á Landspítala vegna covid 19, enginn er þó alvarlega veikur. Bjarni Rúnarsson ræddi við Guðrúnu Aspelund sóttvarnalækni.
Staða erlendra kvenna á vinnumarkaði er viðkvæmari en íslenskra kvenna. Meiri líkur er á að konur af erlendu bergi brotnar lendi í atvinnuleysi og veljist í störf sem ekki þarfnast sérþekkingar eða menntunar. Jafnréttisþing fór fram í morgun og meðal þeirra sem flutti erindi þar var Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri. Hún kynnti þar niðurstöður nýlegrar rannsóknar um stöðu og líðan kvenna. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig ólíkir þættir sem tengjast atvinnuþátttöku og fjölskylduábyrgð hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan kvenna á Íslandi og hvernig það samband birtist eftir stéttarstöðu þeirra, uppruna og búsetu. Hafdís Helga Helgadóttir ræddi við Berglindi.
Íbúar Haítí í austanverðu Karíbahafi eru vanir að glíma við erfiðleika af öllu tagi. Upp á síðkastið hafa þeir þó verið meiri og þyngri en oftast áður. Glæpagengi vaða uppi án þess að yfirvöld fái neitt við ráðið. Skortur er á matvælum, eldsneyti og raunar flestu öðru. Þá hefur kólera stungið sér niður að undanförnu, fáeinum árum eftir að síðasti faraldur var kveðinn niður.
Umsjón: Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon.
Stjórn fréttaútsendingar: Júlía Margrét Ingimarsdóttir.