Hlaðvarp Heimsgluggans er tvöfalt að þessu sinni, í fyrri hlutanum er viðtal sem Þórunn Elísabet Bogadóttir átti við Albert Jónsson og Boga Ágústsson um stöðuna í Úkraínu eftir innrás Rússa í febrúar. Fyrirætlun Pútíns Rússlandsforseta um að sigrast snarlega á her Úkraínu og skipta um stjórn í Kænugarði fóru algerlega út um þúfur, Úkraínumenn hafa varist af mikill hörku og nú virðist að mestu um kyrrstöðuhernað að ræða og að hvorki Rússar né Úkraínumenn hafi bolmagn til að sigrast á andstæðingnum.
Síðari hluti Heimsgluggans var hefðbundnari og þar fór Bogi yfir ýmis mál sem voru efst á baugi í erlendum fréttum á árinu 2022.