Forstjóri Icelandair segir að allt þurfi að ganga saman, lánalína stjórnvalda og hlutafjárútboðið til að tryggja framtíð fyrirtækisins. Félagið stefni að því að ganga ekki á rúmlega 15 milljarða lánalínu frá stjórnvöldum.
Ferðatakmarkanir, sem ríkisstjórnin setti á í síðustu viku, setja markaðsátak Íslandsstofu í óvissu. Þegar er búið að ráðstafa þrjú hundruð milljónum í verkefnið.
Afurðaverð til bænda hefur ekki verið kynnt af sláturleyfishöfum. Mikil óvissa ríkir um afkomu bænda vegna þessa. Erfiðlega hefur gengið að manna sláturtíð vegna ferðatakmarkana
Handspritt í litlum glerflöskum sem selt er í verslunum hér á landi hefur vakið hörð viðbrögð þar sem flöskurnar þykja höfða til fólks sem glímir við áfengisvanda. Yfirlæknir á Vogi segir fólk, sem hefur drukkið spritt eftir að faraldurinn skall á, leita þangað í auknum mæli.
Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu funduðu hjá ríkissáttasemjara í morgun, en samningar sjúkraliða á elli- og hjúkrunarheimilum hafa verið lausir síðan í mars í fyrra. Sjúkraliðar eru langþreyttir á samningsleysinu og íhuga nú aðgerðir.
Alþingi kemur saman á morgun. Þetta verður stutt þinghald sem mun standa yfir í um það bil viku. Það á eftir að koma í ljós því stefnt er að því að afgreiða fjölmörg mál. Ríkisábyrgð til handa Icelandair, hlutdeildarlán, og ýmis önnur mál sem tengjasr COVID, að hlutabótaleiðin verði framlengd og tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt í 6 mánuði. Arnar Páll Hauksson talaði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar og Willum Þór Þórsson, formann fjárlaganefndar.
Þrátt fyrir orð Boris Johnsons forsætisráðherra Breta í júní um að hespa nú af Brexit-samningunum við Evrópusambandið telur Michel Barnier aðalsamningamaður ESB að í síðustu samningatörn hafi heldur miðað aftur á bak en áfram. Fyrir mánuði taldi Barnier samninga ólíklega og eins nú. Það hefur ekkert heyrst nýlega hvernig staðan horfi við forsætisráðherra Breta né öðrum ráðherrum. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.