Miklir erfiðleikar eru í stjórnarsamstarfinu í Færeyjum eftir að tveir þingmenn stjórnarflokka lýstu stuðningi við tillögu stjórnarandstöðunnar um réttindabætur fyrir samkynhneigðar mæður. Jenis af Rana og Miðflokkur hans ætla að slíta stjórnarsamstarfinu ef tillagan verður samþykkt. Bárður á Steig Nielsen reynir nú að finna málamiðlun áður en frumvarpið kemur til þriðju umræðu. Þetta ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir við Boga Ágústsson í Heimsglugga dagsins og einnig andóf gegn Boris Johnson í breska Íhaldsflokknum.
Á þriðjudagskvöld greiddu 100 þingmenn Íhaldsflokksins atkvæði gegn frumvarpi stjórnarinnar um bólusetningarpassa. Frumvarpið var samþykkt með stuðningi Verkamannaflokksins, en það er auðvitað afleitt fyrir forsætisráðherra að þurfa að leita á náðir stjórnarandstöðunnar til að fá mikilvægt stjórnarfrumvarp samþykkt.
Þetta er langalvarlegast andófið sem Boris Johnson hefur fengið úr eigin flokki og til marks um að margir þingmenn efast alvarlega um forystu Johnsons.