Jarðskjálftinn sem reið yfir suðvesturhorn landsins rétt fyrir klukkan tvö í dag var 5,6 að stærð. Á þriðja hundrað minni skjálftar hafa fylgt í kjölfarið. Stóri skjálftinn fannst víða um land en mest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn í dag er sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá því árið 2003. Upptök hans voru 6 km fyrir vestan Kleifarvatn og 14 kílómetra norðaustan við Grindavík.
Ekki hafa borist tilkynningar um slys á fólki eða tjón á mannvirkjum. Skriða féll á veginn um Djúpavatnsleið skammt frá upptökum skjálftans.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag ríkið af kröfu Kristjáns Viðars Júlíussonar og dánarbús Tryggva Rúnars Leifssonar. Þeir kröfðust bóta fyrir tjón vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og tekjutap vegna frelsissviptingar.
Rætt var við Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðing hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, stóra skjálftann sem var í dag og um gosvirknina á Reykjanesskaga. Arnar Páll Hauksson talaði við Halldór.
Útlitið í ferðaþjónustunni næstu vikur er kolsvart segir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustufyrirtæki vonast eftir beinum rekstrarstyrkjum frá ríkinu til að lifa af veturinn. Kristján Sigurjónsson talaði við Bjarnheiði Hallsdóttur.
Sjálfsstjórn einstakra landshluta í Bretlandi hefur verið pólitískt deilumál í Bretlandi í áratugi. Covid-19 faraldurinn hefur með óvæntum hætti styrkt bæði sjálfsstjórn og sjálfsímynd svæðanna fjögurra sem hafa tekið á faraldrinum með ólíkum hætti. Kjörnir borgarstjóra í ýmsum stærstu borgum Bretlands hafa svo undanfarið staðið upp í hárinu á bresku stjórnina í togstreitu um veiruaðgerðir sem að hluta snúast um að ,,þeir þarna fyrir sunnan“ skilji ekki lífsskilyrðin fyrir norðan. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.