Fyrir 50 árum síðan stofnaði semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir tónlistarhátíð sem í dag er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu. Fjölmörg ný íslensk tónverk hafa orðið til fyrir Sumartónleika í Skálholti, en hátíðin hefur líka skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð langt út fyrir landsteinana. Við rifjum upp umfjöllun um upphafskonu Sumartónleikanna og ræðum við núverandi listrænan stjórnanda hátíðarinnar, Benedikt Kristjánsson. Við heyrum líka síðasta heimspekipistil í bili frá Freyju Þórsdóttur, sem að þessu sinni fjallar um athygli og einmanaleika í samhengi við róttæka tæknivæðingu nútímans. Og Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í nýútkomna skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, Áður en ég brjálast. En við byrjum á því að kynna okkur hátíð sem fer fram á Raufarhöfn um helgina. Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari og listrænn stjórnandi hátíðarinnar leit við í hljóðstofu.