4.500 manns sóttu í dag um bætur vegna skerts starfshlutfalls. Í morgun var opnað fyrir umsóknir á vef Vinnumálalstofnunar. Búist er við að um tuttugu þúsund manns gætu nýtt sé slíkar bætur.
Fimmtán manns með staðfest COVID-19 smit eru nú á Landspítalanum. Þar af eru tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á daglegum fundi Almannavarna.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri segir enga þörf á að setja þak á verðtryggingu lána. Ekki aðeins séu verðbólguhorfur lágar heldur hafi landsmönnum aldrei staðið til boða hagstæðari vaxtakjör.
Samkomubann kallar á breytta nálgun við jarðarfarir og hinstu kveðju ástvina segir Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahússprestur á Landspítalanum.
Rúmlega þrír milljarðar jarðarbúa eiga að fyrirskipan stjórnvalda í hátt í sjötíu löndum að halda sig heima vegna COVID-19 farsóttarinnar. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Sérstök COVID-deild hefur nú verið opnuð á Sjúkrahúsinu á Akureyri og öndunarvélum þar verður fjölgað um tvær. Ágúst Ólafsson ræddi við Krístínu Margréti Gylfadóttur, forstöðuhjúkrunarfræðing á Sjúkrahúsinu.
----
Vilhjálmur Birgisson. fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands segir að ekki komi til greina að fresta umsömdum launahækkunum um næstu mánaðamót. Ásta Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs telur að til greina komi að fresta þeim vegna ástandsins sem nú ríkir. Arnar Páll Hauksson ræddi við Vilhjálm og Ástu.
Fólk í framlínustörfum leggur sig í ákveðna hættu til að halda samfélaginu gangandi. Það hittir fjölda fólks á hverjum degi og er því kannski útsettara en margur fyrir smiti. Arnhildur Hálfdánardóttir ræddi við lyfsala, leikskólakennara, strætóbílstjóra og starfsmenn matvöruverslana um lífið í framlínunni.
Nærri fimmtán hundruð manns hafa svarað kalli heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og skráð sig á útkallslista í svokallaðar Bakvarðasveitir. Hjá heilbrigðisþjónustunni voru í dag 710 skráðir; Á lista velferðarþjónustunnar voru komnir hátt í 800. Erna Blöndal er skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu sem heldur utan um skráningar í bakvarðasveit velferðarþjónustunnar, hún tekur undir það að vissulega hafi heilmargir skráð sig en þjónustan kalli á marga. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Ernu.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Jón Þór Helgason. Stjórn útsendingar: Björg Guðlaugsdóttir.