Kókaín greindist í þremur sem létust á þessu ári vegna lyfjaeitrunar samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins. Fyrstu sjö mánuði ársins er talið að 26 dauðsföll megi rekja til misnotkunar lyfja.
45 milljörðum verður varið í samgöngur á landinu á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. 27 milljarðar fara í viðhald og framkvæmdir á vegum. Framlög til málaflokksins aukast um fjóra og hálfan milljarð milli ára.
Mat stjórnvalda er að með innheimtu veggjalda sé hægt að flýta vegaframkvæmdum umtalsvert. Upphæð gjaldanna hefur ekki verið ákveðin en rætt er um að þau fari ekki yfir 200 krónur.
Danskur verðlaunakór er þessa dagana á tónleikaferðalagi um Ísland. Kórinn syngur rytmíska samtímatónlist í nýjum og skapandi raddútsetningum. Íslenskur söngvari í kórnum segir að kórinn sé tuttugustu og fyrstu aldar kór.
Húsnæðisskortur er í fjórum af hverjum fimm sveitarfélögum í Svíþjóð. Í stærri borgum landsins er ekki óalgengt að fólk býði í áratug eða lengur eftir leigusamningi. Stórir, alþjóðlegir fjárfestingasjóðir sjá tækifæri í stöðunni og hafa keypt fjölda leiguíbúða sem áður voru í eigu hins opinbera. Kári Gylfason segir frá.
Uppistand og óvenjulegar uppákomur hafa verið daglegt brauð í breska þinginu undanfarið. Svo eru það dómsmál um heimild forsætisráðherra til að senda þingið heim. Og það stefnir í kosningar. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins hefur misst þingmeirihlutann og þá, að hluta, tökin á framvindunni. Óljóst er hver græðir og hver tapar á óreiðunni. Brexit verður lykilatriðið í komandi kosningu og því mikið undir því komið hvort stjórnin getur snúið Brexit-sögunni sér í hag. Sigrún Davíðsdóttir.