Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að útbreiðsla kórónaveirunnar sé orðin að heimsfaraldri.
Einn liggur veikur á sjúkrahúsi hérlendis vegna COVID-19 veirusmits. Hann er sá þriðji sem lagður er inn á sjúkrahús eftir smit en sá fyrsti sem er fluttur á spítala beinlínis vegna veikinda af völdum veirunnar.
Ein hópuppsögn hefur borist Vinnumálastofnun vegna útbreiðslu veirunnar.
Gul viðvörun vegna hríðar er í gildi á landinu norðan- og austanverðu en vegna vinds suðaustan til. Vetrarfærð er í öllum landshlutum.
Ekki náðust samningar í kjaradeilu Eflingar og sveitarfélaganna í dag. Verkfall félagsmanna Eflingar í nokkrum sveitarfélögum, aðallega á höfuðborgarsvæðinu, heldur því áfram.
Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var í dag dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun og annað kynferðisofbeldi.
Seðlabankastjóri segir að það jákvæða við þrengingarnar sem nú steðja að vegna COVID-19 sé að þær verði tímabundnar. Bankinn ákvað í morgun að lækka stýrivexti og bindisskyldu bankanna til að bregðast við ástandinu. Á fundi Seðlabankans í morgun kom fram að efnahagsspá bankans sem kynnt var í febrúar er úrelt. En
getur Ásgeir Jónssson seðlabankastjóri svarað því hverjar efnahagshorfurnar eru. Er ástandið núna mjög sérstakt í efnahagslegu tilliti. Arnar Páll Hauksson talar við Ásgeir Jónsson og Henný Hinz.
Vaxtalækkun Englandsbanka í morgun gaf tóninn fyrir fjárlög til að bregðast við veirufaraldrinum, sem Rishi Sunak fjármálaráðherra Breta lagði fram í dag. Stóra spurningin var hversu mikið fjármálaráðherra myndi fjarlægjast áratugs niðurskurðarstefnu Íhaldsflokksins. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.