Sakborningar í hryðjuverkamálinu ræddu sín á milli um að aka á mannfjölda í gleðigöngunni í Reykjavík. Sérfræðingar Evrópulögreglunnar töldu árás yfirvofandi.
Framkvæmdastjóri N4 á Akureyri segir það hafa verið fyrir tilstuðlan þingmanns Framsóknar frá Akureyri, sem hún sendi 100 milljón króna styrkbeiðni til fjárlaganefndar. Mágur framkvæmdastjórans þvertekur fyrir að hafa verið vanhæfur í málinu.
Stjórnvöld heims eru langt frá því að ná markmiði um að halda hlýnun harðar innan einnar og hálfrar gráðu. Nýtt stöðumat Loftslagsráðs leiðir í ljós að stjórnvöld hér á landi þurfi að spýta verulega í lófana.
Hjúkrunarfræðingar í Bretlandi segjast vera að kikna undan álagi. Á annað hundrað þúsund lögðu niður störf í dag.
Kjarnasamruni sem bandarískir vísindamenn greindu frá í vikunni á skilið nóbelsverðlaun og gæti umbylt orkugeiranum. Þetta segir orkumálastjóri. Enn sé þó langur vegur í að hægt sé að hagnýta aðferðina.
----
Yfir eitt hundrað þúsund hjúkrunarfræðingar á Englandi, Norður-Írlandi og í Wales eru í eins sólarhrings verkfalli til að mótmæla bágum kjörum og ófullnægjandi vinnuaðstæðum. Stéttarfélag þeirra Royal College of Nursing eða RCN fer fram á 19,2 prósenta launahækkun. Stjórnvöld segja kröfurnar taka út yfir allan þjófabálk og býður fjögurra prósenta hækkun. Ásgeir Tómasson fjallar um málið.
Kjarnasamruninn sem vísindamenn í Bandaríkjunum greindu frá á þriðjudag er einstakt vísindaafrek sem gæti lagt grunn að byltingu í orkuframleiðslu, segir orkumálastjóri. Enn er þó langur vegur í að hægt verði að hagnýta hann. Blásið var í lúðra í Kaliforníu á þriðjudag þegar vísindamenn greindu frá því að þeim hefði í fyrsta sinn tekist að beita svokölluðum kjarnasamruna til að vinna raforku og fengið meiri orku út en sett var inn í ferlið.
Tvö hundruð leysigeislum var beint í átt að hylki á stærð við piparkorn, til að fá tvö létt atóm til að renna saman en við það losnar orka úr læðingi. Þessi tilraun hefur verið framkvæmd áður - en það merkilega í þetta sinn var að orkan sem fékkst út var meiri en sú sem þurfti í geislann. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri segir afrekið gera tilkall til Nóbelsverðlauna. Bjarni Rúnarsson ræddi við hana.
Hneykslismál skekur nú yfirstjórn sænsku lögreglunnar. Rætt er um yfirhylmingu og þöggunartilburði í tengslum við meinta áreitni, líkamsárás og umsáturseinelti eins af æðstu yfirmönnum lögreglunnar í Svíþjóð.
Kári Gylfason í Gautaborg fjallar um málið.
Umsjón:Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Mark Eldred.
Stjórn fréttaútsendingar: Valgerður Þorsteinsdóttir.