COVID-19 faraldurinn þýðir að minnsta kosti 200 milljarða króna högg fyrir ríkissjóð, segir fjármálaráðherra. Faraldurinn stefnir í að verða stærsta efnahagslega krísa Íslendinga í eitt hundrað ár.
Flest bendir til þess að ríkisstjórnin framlengi stuðningssamning sinn við Icelandair um að halda úti lágmarksflugsamgöngum eftir 15. apríl. Þetta segir samgönguráðherra.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að það sé spurning hvort Ísland hafi náð toppnum í kórónuveirufaraldrinum. Óvenjufá tilfelli greindust síðasta sólarhringinn eða 24. Næstu dagar skeri úr um hvort svo sé eða ekki.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mjög óeðlilegt að nýr kjarasamningur við starfsfólk álversins í Straumsvík velti á því hvort Landsvirkjun endurskoði raforkusamninga.
Mörg hundruð Íranar eru látnir eftir að hafa drukkið óblandað alkóhól til að verjast kórónuveirunni.
Tæplega 19 þúsund fengu í dag greiddar út bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði vegna skerts starfshlutfalls. Alls námu greiðslurnar tæpum einum komma þremur milljörðum króna. Spáð er að atvinnuleysi í þessum mánuði geti farið í 22% á Suðurnesjum. Arnar Páll Hauksson talar við Unni Sverrisdóttir.
Íslenskur læknir sem starfar á Manhattan í New York segir að henni líði eins og að hafa lent í holskeflu. Fjöldi innlagna vegna COVID-19 hafi hundraðfaldast á tveimur vikum. Tryggvi Aðalbjörnsson talar við Ernu Miunka Kojic.
Í Svíþjóð gengur lífi flestra að mestu leyti sinn vanagang, þótt grannlöndin hafi flest gripið til harðra aðgerða til að tefja fyrr útbreiðslu kórónuveirunnar. Búðir eru opnar, líkt og kaffihús og veitingastaðir, þótt fólk sé reyndar beðið um að halda sig heima, sé það veikt. Hátt í sex hundruð Svíar hafa nú látið lífið vegna veirunnar, þótt þeir kunni að vera mun fleiri. Fræðimenn telja að allt að ein milljón manna - tíu prósent íbúa landsins - kunni að hafa smitast nú þegar. Arnar Páll Hauksson talar við Kára Gylfason í Gautaborg.