Í gær lagði forsætisráðherra fram þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þá loksins er komin skýrari mynd á eina stærstu breytingu sem orðið hefur á stjórnarráðinu um langan tíma. Tvö ný ráðuneyti verða til, ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar annars vegar og hins vegar ráðuneyti ferðamála, viðskipta og menningar. Þá eru gerðar misveigamiklar breytingar á málaflokkum allra annarra ráðuneyta nema fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
Skýringar sem gerðar eru á þessum breytingum eru kröfur um sveigjanleika og viðbragðsþrótt samhliða örum samfélagsbreytingum - eins og segir í þingsályktunartillögunni. Það vakti ekki síður athygli þegar tilkynnt var um uppskipan stjórnarráðsins og nýja ráðherra hve mörg ráðuneyti fóru á milli þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn - og að einu ráðherrarnir sem héldu sínum ráðuneytum voru formenn flokkanna.
Talsverð eftirvænting var um hvaða flokkur fengi yfirráð yfir lykilráðuneytum á borð við heilbrigðisráðuneyti og umhverfisráðuneyti og þótti sá flutningur sem varð milli flokka til marks um breytta stefnu ríkisstjórnarinnar og mögulega átök sem hafa orðið í stjórnarmyndunarviðræðum. Það þótti veikleikamerki fyrir vinstri græn að þurfa að láta umhverfisráðuneytið af hendi til sjálfstæðisflokksins og sú niðurstaða að framsóknarflokkurinn hefði fengið heilbrigðisráðuneytið þótti lýsandi fyrir þann mikla stefnuágreining í málaflokknum sem var milli sjálfstæðismanna og vinstri grænna.
Gestir:
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar,
Friðrik Jónsson formaður BHM sem er stéttarfélag stórshluta starfsfólks stjórnarráðsins
Umsjón: Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Tæknimaður: Jón Þór Helgason