Vinnumálastofnun hefur borist 51 tilkynning um hópuppsagnir sem ná til 4210 starfsmanna. Nær allar tengjast fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin ætli að koma Icelandair til hjálpar, til dæmis með ríkisábyrgð fyrir lánalínu að uppfylltum skilyrðum um hlutafjáraukningu félagsins.
Þrjátíu milljónir hafa misst vinnuna í Bandaríkjunum síðasta hálfan annan mánuð. Botninum er enn ekki náð að mati efnahagssérfræðinga.
Grásleppuveiðar verða stöðvaðar frá og með sunnudeginum þriðja maí og öll leyfi til grásleppuveiða felld úr gildi.
Dorrit Moussaieff hefur náð sér að fullu eftir að hafa veikst af COVID-19. Hún greindist hér á landi, en veit ekki hvar hún smitaðist. Hún lofar íslenskt heilbrigðiskerfi og þakkar því batann.
Mánaðamótin verða þau svörtustu í sögunni, þúsundir hafa fengið uppsagnabréf, stór hluti þjóðarinnar er í skertu starfshlutfalli. Óvíst er hvenær og hversu skarpt ferðaþjónustan tekur við sér á ný. Fólk íhugar stöðu sína, veit ekki alveg hvað tekur við næstu mánuði. Mörg dæmi eru um að pör missi vinnuna. Vinnusálfræðingur varar þau sem nú hafa misst vinnuna við því að sitja aðgerðalaus eftir að geirinn taki við sér - oft verði mikil og spennandi gerjun á krossgötum. Arnhildur Hálfdánardóttir segir frá og talar við Eygló Ólöfu Birgisdóttur, Kolbrúnu Sigurðadóttur, Eyþór Eðvarðsson.
Á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum löndum eru ríkisstjórnir að styrkja fyrirtæki til að sporna gegn atvinnuleysi og öðrum efnahagsáhrifum veirufaraldursins. Um leið heyrast þau sjónarmið að ekki ætti að styrkja fyrirtæki, sem markvisst hafa komið sér undan skattgreiðslum eða ekki sinnt öðrum samfélagslegum sjónarmiðum. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.