Mansal og söngleikir eiga fátt ef nokkuð sameiginlegt, kannski annað en það en að vera umfjöllunarefni þáttarins í dag. Evrópulögreglan, Europol, greindi frá því í fyrradag að rúmlega 200 hafi verið handtekin í aðgerð gegn skipulögðum glæpahópum sem tengjast mansali. Um 13 þúsund lögreglumenn leituðu í fjörutíu og fjórum löndum, í íbúðarhúsum, lestarstöðvum, flugvöllum og víðar. Rúmlega 14 hundruð mögulegum fórnarlömbum mansals var bjargað. Flest þeirra voru börn. Ólögráða börn eru þolendur mansals. Þau eru seld mansali til kynlífsmisnotkunar og neydd til að betla eða fremja margskonar glæpi. Arnar Björnsson fjallar um málið.
Þegar ellefu hljóðfæraleikarar tóku að sér hlutverk í hljómsveitinni fyrir söngleikinn um óperudrauginn á Broadway árið 1988 grunaði þá líklega fæsta að þarna væri ævistarfið komið. Þrjátíu og fimm árum, og hátt í fjórtán þúsund sýningum síðar, var komið að lokasýningunni. Þetta var í apríl. Vinsældir söngleikja eru stundum samofnar því sem er að gerast í samfélaginu. Til dæmis þótti söngleikurinn Mamma Mia kærkominn þegar hann var frumsýndur í New York stuttu eftir hryðjuverkaárásirnar þar í borg. Birta skoðaði sögu söngleikja, ástæður vinsælda þeirra og framtíðarhorfur.
Umsjónarmenn þáttarins eru: Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.