Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu um Arne Treholt sem var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir njósnir 1985 en hann lést á sunnudaginn. Treholt var á laun í sambandi við sovésku leyniþjónustuna KGB og lét fulltrúa hennar upplýsingar í té og þáði fé fyrir. Hann neitaði þó alltaf að hann hefði upplýst um ríkisleyndarmál og ógnað öryggi Noregs. Þá ræddu þeir fjölmiðlafrelsi á Indlandi en forsætisráðherra landsins, Narendra Modi, hefur ekki mikið umburðarlyndi gagnvart fjölmiðlum sem gagnrýna hann. Skattalögreglunni var sigað á breska ríkisútvarpið BBC vegna heimildarmyndar sem indverska forsætisráðherranum er ekki að skapi. Modi hefur á undanförnum árum þrengt mjög að fjölmiðlum og Indland hefur fallið niður í 150. sæti á lista samtaka blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi.
Þá ræddu Björn Þór og Bogi um Nicolu Sturgeon, sem tilkynnti óvænt í gær að hún ætlaði að hætta sem fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, SNP. Allir eru sammála um að sjónarsviptir verði að henni og að andstæðingar hennar fagni brotthvarfi hennar því hún hefur verið öflugur leiðtogi, mælsk, rökföst og með mestu skörungum í stjórnmálabaráttunni á Bretlandi.