Ljóst er að Repúblikanar verða í meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings næstu tvö árin. Sá meirihluti verður þó naumur og mun minni en vonir Repúblikana stóðu til fyrir kosningar. Þeir töldu að stórsigur væri í vændum en niðurstaðan varð að Demókratar halda völdum í öldungadeildinni og þeim gekk betur í ýmsum öðrum kosningum svo sem til embætta í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta var meðal umræðuefna er Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu við Boga Ágústsson um erlend málefni í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1.
Þau ræddu einnig nýjar og nýlegar íslenskar bækur um erlend málefni og um stöðu mála í Brasílíu þar sem ýmis erfið verkefni bíða.