Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu í Heimsglugganum að þessu sinni mest um þá miklu mótmælaöldu sem risið hefur eftir að hvítur lögreglumaður varð George Floyd að bana í Minneapolis í Bandaríkjunum. Í Bretlandi var áletrunin ,,Black lives matter" á treyjum knattspyrnumanna í efstu deild í stað nafna þeirra þegar keppni hófst að nýju í gær. Þar hefur fótboltamanninum Marcus Rashford tekist að fá bresku stjórnina ofan af því að hætta að gefa skólabörnum mat þegar leyfi eru í skólanum. Marcus Rashford 1 Boris Johnson 0 voru fyrirsagnir í sumum blöðum. Í Bandaríkjunum hefur hvítur lögreglumaður, Gareth Roth, verið ákærður fyrir morð eftir að hafa skotið blökkumanninn Rayshard Brooks til bana. Verði Roth fundinn sekur gæti beðið hans lífstíðarfangelsi, jafnvel dauðarefsing.
Þá ræddu Björn Þór og Bogi bók sem er að koma út í Bandaríkjunum eftir John Bolton, fyrrverandi öryggisráðgjafa Donalds Trumps forseta. Í bókinni segir Bolton að á meðan hann starfaði í Hvíta húsinu hafi allar ákvarðanir Trumps verið teknar með það að sjónarmiði að gagnast forsetanum í baráttu hans til að vera endurkjörinn í haust.