Heimsglugginn þessa vikuna fjallaði að mestu leyti um vandræði breska forsætisráðherrans. Boris Johnson fékk að finna til tevatnsins í fyrirspurnatíma forsætisráðherra vegna jólasamkvæmis sem hann neitar að hafi verið haldið í Downing-stræti 10 í fyrra.
Daily Mirror ljóstraði því upp í síðustu viku að jólasamkvæmi hefði verið haldið í bústað forsætisráðherra í desember í fyrra þegar mjög strangar sóttvarnareglur voru í gildi. Fólk mátti ekki hittast innanhúss, utanhúss máttu aðeins sex koma saman og jólaveislur voru sérstaklega bannaðar. Johnson, aðrir ráðherrar og þingmenn Íhaldsflokksins harðneituðu að þessi frétt væri rétt en svo sprakk sprengja á þriðjudagskvöld þegar sjónvarpsstöðin ITV birti í fréttum sínum klukkan tíu upptöku frá desember í fyrra þar sem starfsmenn í Downing-stræti 10 virðast gera grín og hafa veisluhöldin í flimtingum. Þetta var sett upp sem blaðamannafundur þar sem Allegra Stratton, þá verðandi talsmaður forsætisráðherra, var beðin um að svara fyrir um þetta jólapartý.
Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu einng um nýja stjórn í Þýskalandi og þau tímamót að ,,Mutti" Merkel er hætt sem kanslari eftir 16 ár og Olaf Scholz tekinn við.
Í lokin var aðeins rætt um Bítlana og Let it be, síðustu stóru plötu þeirra sem var útgefin. Platan er aftur komin á vinsældalista eftir að sýningar hófust á sjónvarpsþáttum sem Peter Jackson gerði úr upptökum sem frá því þegar Bítlarnir voru að taka plötuna upp 1969. Við heyrðum svo lagið Get back, sem er síðasta lagið á plötunni Let it be.