Þriðju vikuna í röð var innrás Rússa í Úkraínu aðalumræðuefnið í Heimsglugganum. Guðrún Hálfdánardóttir og Sigríður Halldórsdóttir ræddu við Boga Ágústsson um stöðuna í styrjöldinni í Úkraínu, fólskulega árás Rússa á barnasjúkrahús í borginni Mariupol og önnur óhæfuverk innrásarliðsins. Á þriðju milljón Úkraínumanna hefur flúið land og öll lönd Evrópusambandsins hafa opnað landamæri sín. Hlutfallslega eru flestir flóttamenn frá Úkraínu í Moldóvu, sem er eitt fátækasta ríki Evrópu. Bretar skera sig úr hópi Vestur-Evrópu ríkja því þeir krefjast vegabréfsáritunar. Það hefur verið harðlega gagnrýnt af stjórnarandstöðu sem og mörgum þingmönnum Íhaldsflokksins.
Samstaða vestrænna ríkja gegn Rússum er mikil og eru þeir beittir afar hörðum efnahagslegum refsiaðgerðum.