Þórunn Elísabet Bogadóttir og Vera Illugadóttir ræddu að venju erlend málefni á fimmtudegi við Boga Ágústsson. Athyglin beindist að þessu sinni að danska ríkissambandinu, Rigsfællesskabet. Það er talsverð spenna á milli Grænlendinga og Dana. Grænlendingar eru óánægðir með að Dani var skipaður sendiherra norðurslóða, segja að grænlenskur diplómat eigi að gegna embættinu, Grænland sé norðurslóðasvæðið í ríkissambandinu.
Þau ræddu einnig að Svíar minnast þess að 500 ár eru liðin frá stofnun núverandi ríkis í Svíþjóð og formlegum lokum Kalmar-sambandsins. Það var þegar Gústaf Eiríksson Vasa var kjörinn konungur 6. júní 1523. Afkomendur hans sátu einvaldir á valdastóli þangað til 1809 er Svíar fengu nýja stjórnarskrá sem takmarkaði vald konungs. Gustav IV Adolf var settur af við sama tækifæri og föðurbróðir hans Karl XIII tók við. Sá átti ekki börn og Svíar buðu því frönskum hershöfðingja, Jean Bernadotte, að verða ríkisarfi og hann varð svo Karl XIV Johan. Afkomendur hans hafa verið konungar Svíþjóðar síðan.
Í lokin heyrðum við er Mads Thyrsted, íþróttafréttamaður Danmarks Radio, lýsti jöfnunarmarki Árósaliðsins AGF gegn Brøndy í lokaumferð dönsku knattspyrnunnar. AGF þurfti að ná jafntefli til að fá bronsverðlaun í efstu deild og komast í Evrópukeppni. Thyrsted fór með himinskautum í lýsingu sinni.