Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu heimsókn Bandaríkjaforseta til Írlands í Heimsglugganum. Joe Biden rekur ættir til eyjarinnar grænu eins og 40 milljónir annarra Bandaríkjamanna og honum verður tíðrætt um írskan uppruna sinn. Biden hélt ræðu í Belfast þar sem hann hvatti Norður-Íra til að halda friðinn en tilefni heimsóknar hans er að 25 ár eru frá því að gert var friðarsamkomulag sem kennt er við föstudaginn langa.
Þá ræddu Björn og Bogi útlit í efnahagsmálum heimsins. Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stendur í Washington og samkvæm spá sjóðsins verður hagvöxtur innan við þrjú prósent í ár og mestur á Indlandi og í Kína. Stöðnun er víða á Vesturlöndum og jafnvel samdráttur í Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi. Sjóðurinn spáir 2,3% hagvexti á Íslandi.
Dag Henriksen, prófessor við háskóla norska hersins og ofursti í flughernum, hefur lagt fram hugmyndir um náið samstarf flugherja Norðurlanda, sameiginlega ráði þjóðirnar fjórar yfir 250 fullkomnum orrustuþotum. Henriksen bendir á að með sameiginlegri upplýsinga- og stjórnstöð sé hægt að nýta varnarmáttinn betur, ógni Rússar til dæmis Finnum sé í raun hægt að þrefalda styrk loftvarna Finnlands með slíkri samvinnu. Hann nefnir einnig að Norðmenn hafi núna tvo aðalherflugvelli en ef mögulegt sé að nota herflugvelli í hinum ríkjunum geri það árásir á norska flugherinn miklu erfiðari. Loftvarnir þar sem herforingjar ráði yfir 250 fullkomnum orrustuþotum séu mun öflugri en þegar þeir hafi aðeins nokkrum tugum véla yfir að ráða.