Sigmar Guðmundsson og Bogi Ágústsson ræddu um viðbrögð vestanhafs, einkum þó Bandaríkjaforseta, við COVID-19 farsóttinni. Trump forseti hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að gera lítið út hættunni, segja að Bandaríkjamenn hefðu fulla stjórn, ekkert væri að óttast og þetta yrði allt í fínu lagi. Hann hefur og verið gagnrýndur fyrir aðgerðarleysi. Á síðustu dögum hefur Trump þó snúið við blaðinu og virðist nú fara eftir ráðleggingum vísindamanna. Þar er fremstur í flokki Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna. Fauci er 79 ára gamall, læknir og sérfræðingur í ónæmisfræðum og hann hefur verið óhræddur við að leiðrétta og andmæla forsetanum þótt hann hafi gert það á penan hátt.
Vinsældir Trumps hafa aukist síðustu daga en sumir stjórnmálaskýrendur telja að það eigi ekki eftir að gagnast forsetanum í kosningunum sem verða í nóvember. Aðrir segja að allt of snemmt sé að reyna að spá fyrir úrslit þeirra kosninga.