Björn Þór Sigbjörnsson og Vera Illugadóttir ræddu ýmis mál við Boga Ágústsson í Heimsgluggaspjalli vikunnar á Morgunvakt Rásar 1. Á dagskrá voru norrænn fótbolti, ekki síst það afrek Færeyjarmeistara KÍ Klakksvíkur að slá BF Häcken Svíþjóðarmeistarana út úr forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Áður höfðu Klakksvíkingar lagt ungversku meistarana í hinu fornfræga liði Ferencváros. Þá ræddu þau formannskjör í grænlenska jafnaðarmannaflokknum Siumut en Erik Jensen var endurkjörinn. Aki-Matilda Høegh-Dam og Kim Kielsen buðu sig fram gegn Jensen en hann vann afgerandi sigur, fékk 39 atkvæði, Høegh-Dam 16 og Kielsen 13.
Þá ræddu þau áhugaverða hlaðvarpsþætti en meginumræðan var um ákærur gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.