Stjórnmálaástandið í Bretlandi var til umræðu er Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu við Boga Ágústsson í Heimsglugganum. Ný skoðanakönnun Yougov fyrir The Times bendir til þess að að 60 prósent kjósenda í Bretlandi vilji að Boris Johnson, forsætisráðherra, segi af sér. Óánægjuna má rekja til margra hneykslismála undanfarna mánuði. Síðast var upplýst á mánudag að garðveisla hefði verið haldin í embættisbústað forsætisráðherra í maí árið 2020 þegar afar strangar sóttvarnareglur voru í gildi og allar samkomur bannaðar, innan- sem utanhúss.